Á ægifögru vorkvöldi hittust nokkrir Catan nerðir á lýðnetinu og spiluðu Stórcatan eða Great Xplorers eins og stafræna útgáfan af borðinu kallast. Þessir miklu menn voru Óli Gauju, Freysalingurinn og Óskar bróðir Bóasar og svo mætti Monica bot líka. Óli vann hlutkestið og lenti í vandræðum með að planta niður borginni sinni en aðrir leikmenn komu sér þægilega fyrir. Þegar leið á spilið þá var það kýrskýrt að þetta spil gekk bara út á eitt,
einelti. Stóru vondu ruddarnir Freysi og Óskar byrjuðu að ræna og rupla Óla litla eins og þeir gátu og Monica komst líka á bragðið og lagði vegi þvert fyrir vesalings Óla. Einnig létu þeir slæm ummæli falla í garð greyið Óla þar til að hann sá sér ekki fært annað en að verða að óskum þeirra og spila sig út í horn. Barsmíðarnar héldu áfram, mögnuðust þegar leið á spilið, urðu ennþá grófari og ruddalegri, riddurum var stolið, vegir eyðilagðir, stóru ruddarnir hirtu spilin af Óla sem hann hafði svo mikið fyrir að safna. Þegar leið undir lok spilsins þá byrjuðu ólátabelgirnir að metast um hvort þeirra hefði nú farið verr með Óla litla og hlaut hann ómældar sálarkvalir og sá sér ekkert annað fært en að skola óþverranum niður með alkóhólríkum bjór til að reyna að deyfa mestu verkina. Freysalingur stóð uppi sem ósanngjarn sigurvegari og Catan samfélagið lét hann greinilega vita af því þegar það tilkynnti:
"The game will not be ranked, because it is wrong to pick on people!"Óvíst er hvort að þessir ruddar megi spila aftur á lýðnetinu.
Takk fyrir ekki neitt.