Wednesday, February 27, 2008

 

Baráttan heldur áfram..óvænt úrslit!

27. febrúar 2008. það er dimmt vetrarkvöld að dönskum stíl og vindurinn hamast úti fyrir. Við gamalt tréborð í skjóli frá veðrum og vindum sitja 4 menn og gera sig klára í ævintýralegt kvöld, þeir ætla að ferðast í huganum yfir höfin blá suður til Puerto Rico. Það er tími verslanna og viðskipta og ekki síst kænsku, hér gildir það að duga eða einfaldlega drepast. Sviðið er klárt, menn komnir með eina plantekru hver, mannlausa og ekkert eftir en að ráðast í þetta. Það ríkir gríðarleg spenna í mönnum þegar fyrsti maður, Krissi hinn hvíti lætur til skarar skríða. Glampinn frá kertaljósinu dansar í augum hans, hann er með áform, hann ætlar að sigra. Hjartað í Freysanum hamast, hann er einnig með plan, hann verður, hann ætlar, hann skal koma sér upp kaffiplantekru af suðuramerískum stíl, þéna smá pening og fjárfesta svo í kaffibrennslu. Já draumórakennd plön um að skapa eitthvað sérstakt, eitthvað einstakt, kaffiblöndu sem slær öllu öðru út. Freysi æltar að verða ríkur og vinsæll um allan hnöttinn. Áform keppinauta eru ekki jafn skýr en eitt er víst, allir ætla að sigra keppinauta sína. Krissi hefur leikinn með djörfu útspili sem skekur jörðina og um stund setur menn hljóða. Hvað hefur hann í hyggju? Næstur var það Freysinn sem velur hyggilega að sitja hjá...hann er að safna sér fyrir kaffibrennslunni. Rúnar og Vígafús sitja þöglir, það er ekkert hægt að lesa úr einbeittum andlitum þeirra, hvur eru þeirra áform? Það líður á spilið, menn skiptast á að vera ríkisstjórar á þessari fögru og dásamlegu eyju. Menn eru nokkuð góðir að koma sér upp auðævum og Freysinn fjárfestir í sinni fyrstu kaffibrennslu og skömmu síðar velur einhver landnema hlutverkið og kaffiplantekran verður að veruleika. Kaffiævintýrið er hafið. Freysi lítur stoltur yfir land sitt en verður það á að líta yfir skóginn til Vígafúsa sem situr líka með glænýja kaffibrennslu og ekru og það sem meira er, karlinn er með sykur-, korn-, og langt kominn með litarefnisframleiðslu að auki. Freysinn lítur þá yfir á hægri hönd og sér þar Krissa hinn hvíta. Erfitt er að átta sig á hvað sá maður er að gera en eitt er víst, þeldökkir landnemar hrúgast inn á skikann hans eins það sé enginn morgundagur. Já Krissi er með “hachienta” sem gerir honum kleift að planta þeldökkum landnema á plantekrur sínar að vild og skipa þeim að vinna....nú er það svart. Freysinn þorir varla en verður, hann lítur yfir hæðirnar beint fram þar sem Rúnar ræpa hefur sitt aðsetur, hvað lumar hann á. Í fyrstu er ekkert þar að sjá, reykur byrgir mönnum sín en svo allt í einu út úr móðunni má greina tóbaks akra svo langt sem augað eygði og ekki nóg með það heldur hafði Rúnar líka reist miklar og ljótar tóbaksverksmiðjur mitt í þessari annars fallegu paradís. Já Rúnar hafði valið hyggilega, hann var einráður í þessum geira, enginn hafði vogað sér út í tóbakið, enginn hafði haft samvisku í að stórgræða á jafn heilsuspillandi máta. Það lá við að maður skammaðist sín fyrir að vera manneskja.

Já svona gekk þetta , veldi Rúnars ræpu óx og óx og verslunarskip lágu eins og brú til meginlandsins drekkhlaðin eitrinu hans. Vígafúsi sat svo sem ekki auðum höndum á meðan, sá hafði rænu á því að pumpa út kaffi í gríð og erg og um leið senda vígamenn til að skemma uppskeru annarra. Oftast var það Freysinn sem lenti fyrir barðinu á þessum ósangjarna leik Vigfúsar...skamm Vigfús þú ert illur. Vigfús átti því stóran hluta í förmum verslunarskipa. En já Freysinn fékk samt stig, reisti, skrifstofu og svo höfn og nældi sér í stig með útflutningi korns, litarefnis og svo kaffi endrum og eins...en gæðakaffi samt sem áður. Eftir um tæpar tvær klst í þessum upphugsaða veruleika var öllu lokið, Freysinn valdi Major og kláraði þannig þrælalagerinn áður en Vígafús gæti komið þúsundum tunna af kaffi, korni, litarefni og sykri í skip. Leiknum var lokið, veruleikinn tók við. Hvernig fór svo já eftir spennandi talningu og ærandi þögn í um 5 mín voru úrslitin ráðin.

Krissi náði sér í 38 stig eða svo, Freysinn 43, Rúnar 46 og hvar haldiði svo að Vígafús hafi lent? Nei rangt, hann lenti í þriðja sæti með 40 stig. Já fínt spil, heldur stutt en það sem best er, strategían hans Freysa gekk upp

Tuesday, February 26, 2008

 

Ég er til í kvöld...hvað með þig?

.
Ég er kominn með nýja strategiu sem mig langar að prófa...ertu game? Eigum við ekki svo að reynsluaka Abba? Ég er amk til í kvöld já há! Veiiii!!!

Monday, February 25, 2008

 

Línuleg bestun par exellance


Vildi bara koma því á framfæri að í síðasta Puerto Rico spili, sem fór fram í Freysalundi, þá náði Ólafur hinn góði þeim árangri að hala inn 60 vinningsstigum. 38 stig hafði hann á hendi, 14 í borði og nældi sér í 8 aukastig í lokin. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi nema út af því að hann er einmitt nýbyrjaður í spennandi kúrs sem kallast "Línuleg bestun" á okkar ylhýra og ægifagra. Þar lærir hann hvernig maður getur hámarkað hagnað, eða lágmarkað kostnað með því að setja fram nokkrar ójöfnur. Í þessum kúrs er simplex reikniritið kynnt en það er hægt að nota til að "besta" ýmiskonar verkefni. Eitt af þessum verkefnum gæti verið að hámarka fjölda vinningsstiga með því að taka tillit til hversu mikið af peningum maður á, úrval bygginga á hverjum tíma, magn hráefnis sem maður hefur, framleiðslugeta o.s.frv. En hann er hinsvegar svo takmarkaður að hann gæti ómögulega notað þessa litlu vitneskju sem hann hefur til að beita henni í spilinu...eða hvað?
Ólafur vill koma því á framfæri að hann hyggst leggja skóna á hilluna, hætta á toppnum og getur því aldrei spilað Puerto Rico aftur.
Óli "sextíu" Helgi.

Saturday, February 23, 2008

 

Reynsluboltinn og nýliðinn


Í gærkvöldi var aldeilis tekin gott rennsli á nýja Puerto Rico spilinu. Mættir voru Vigfús, Atli, Freysi, Rúnar og undirritaður. Staðsetning, 142, sem núna heitir Atlavík. Atli hafði reyndar ekki spilað spilið fyrr þannig að við fórum rólega en örugglega af stað. Augum allra var beint að Illa og menn voru ansi varir um sig til að byrja með. Vigfús var duglegur að upplýsa Atla um helstu brellurnar í leiknum á meðan mótspilararnir ræddu um allt á milli himins og jarðar, Þorberg, NBA, tímgun, rafgeyma, Nörrebro brugghúsið og fleira. Þegar að leið á spilið tókst Vigfúsi að koma sér í þægilega stöðu, Atli var ennþá blautur á bakvið eyrun, undirritaður gerði stórmistök og hundsaði kornið alveg frá upphafi og Rúnar og Freysi reyndu hvað þeir gátu að halda í við Vigfús. En allt kom fyrir ekki, þegar uppi var staðið tókst undirrituðum að gera upp á bak, Atli lenti í næstneðsta, Vigfús vann afgerandi sigur með 50+ stig, Rúnar náði held ég öðru sætinu og Freysi því þriðja. En merkilegt nokk, klukkan var ekki orðin 04:55 og við vorum ekki búnir að drekka frá okkur öll vit þ.a. við töldum að það væri vel við hæfi að taka annað spil. Við endurnýjuðum bjórbirgðirnar, undirritaður tókst að klára allra síðustu jólabjórana þetta kvöldið og Rúnar náði í "kassann". Þá hófst nýtt spil, allir endurnærðir og undirritaður náði að skola það mesta af skítnum af bakinu áður en hann settist aftur niður við spilaborðið. Í þessu spili náði Rúnar góðum hreðjartökum á mótspilurunum, undirritaður var einnig í fínum málum og það sama má segja um Vigfús. Freysinn var ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni að þessu sinni en Atli náði að spila vel úr því sem hann hafði og nældi sér í tvær stórar byggingar þrátt fyrir að mótspilarar hans vildu meina að það væri ekki ráðlagt. En það reyndist vera happadrjúgt hjá kallinum því að hann gerði sér lítið fyrir og hirti sinn fyrsta sigur með 52 stigum! Undirritaður var ansi nálægt honum með 51 stig, en varð að sætta sig við annað sætið. Rúnar tók held ég 3. sætið, næstur Vigfús en Freysi endaði í síðasta sæti að þessu sinni.
Þetta var prýðileg skemmtun og Puerto Rico spilið kemur mjög sterkt inn. Nú þurfum við bara að koma Abba og Krissa inn í spilið, þeir koma ábyggilega sterkir inn.
Varðandi ölið sem að kallarnir renndu niður þá mætti Freysi með GB saison páskabjór, undirritaður tók einn Youngs Pudding Ale og smá jóla Tuborg, Atli drakk grænt og Vigfús var með...Royal? Kassinn hans Rúnars inniheldur sífellt færri rauða og brúna Royal.
Ég þakka þeim sem lásu.
Óli Helgi.

Friday, February 22, 2008

 

Hið nýja spil Puerto Rico


Já nú erum við farnir að spila nýtt spil svona til að hvíla Catan aðeins. Við erum búnir að prófa tvö spil eins og glögglega má sjá á stigatöflunni. Fyrsta spilið var prufuspil og vorum við 4. Rúnar vann en það verður víst ekki tekið með í stigatöflu. Næsta spil var svo hérna í SigFreylandi og vann Freysinn á heimavelli. Þetta er bara ljómandi gott spil og kærkomin hvíld frá Catan. Hér er ekki heppni heldur kænska sem ræður þannig að nú eru meiri líkur á að sigra hinn ógurlega Vígafúsa! Vonandi tekst að smala saman í 5 manna Puerto sem fyrst....hmmm t.d. í kvöld?

Eldra efni

March 2007   April 2007   May 2007   June 2007   July 2007   August 2007   September 2007   November 2007   January 2008   February 2008   March 2008   April 2008   November 2008   January 2009   March 2009  








This page is powered by Blogger. Isn't yours?