Thursday, January 31, 2008

 

Einhversstaðar, einhverntímann aftur!


Já, ég er að verða uppurinn með þessa annars ágætu titla á þessa annars prýðilegu síðu. En að kvöldi þrítugastaogfyrsta dags janúar mánaðar, anno 2008, tóku hressir kappar í spil. Ástæðan var sviplegur missir bjórklúbbsins Kidda og íbúðasamsteypunnar Stavns, Eiríkur hefur ákveðið að flýja land. Samfélagið, grundvöllur þess sem gott er í heiminum, hið ljósa man, hjartað rifið úr og ekkert eftir nema svöðusár og einmanna sál sem bíður dauðans. Lítill skógarþröstur syngur, dirrindí, dirrindí er sprengjan lemur jörðina.
Jæja, þetta er e.t.v. full dramatískt.
En sem sagt, mættir voru, undirritaður, Eiki, Vigfús, Krissi og Abbi. 5 manna spil sem þýðir að Eiki siglir af landi brott með 6 manna kórónuna. Endurtekur afrek Jóa Guð og fullkomnar niðurlæginguna á mótspilurunum.
Er spilið hófst lagði Abbi fyrst niður, Eiki síðast, Vigfús næstsíðast. Vigfús spilaði djarft, stólaði á lítið hús á byggreit með sexu, og höll á rolluþrist, járnáttu og járn fjarka. Þá vorum við allir sammála, "þetta er búið". Fyrst að við skildum ekkert í því hvað hann var að gera þá hlýtur það að vera rosa klókt. Það reyndist vera raunin.
Fyrsta umferð endaði með því að Vigfús var kominn með 2 borgir og okkur tókst ekki að verja eyjuna. Vigfús komst því í prýðilega stöðu en náði sér ekki alveg á flug. Hann nældi sér fljótlega í boga yfir borgina sína og passaði sig þá á því að vera ekkert að kaupa riddara, allt í lagi þó svo að við verjum ekkert eyjuna, múhahahahaha! Þá tóku mótspilarar hans sig saman, mynduðu eldsnöggt meirihluta, og björguðu borgunum sínum frá falli. Krissi og Eiki komust einnig vel innn í spilið, Abbi og undirritaður voru meira að spá í boltann. Borgir risu, stigin streymdu inn, verslunarvörur, flettingar, riddarastuldur og undir lokin þá var búið að fletta öllu í botn. Hefst þá saga Arnbjarnar. Með blævæng eins og hefðafrú á leið um Afríku að skoða nýlendurnar sínar, henti hann upp hverri borginni á fætur annarri og nældi sér í heil 15 stig og nokkuð sáttur. En þá kunngerði lýðurinn að í þetta skipti hefðum við ákveðið að spila upp í 16 stig, þá rann af honum gleðin. Ólafur tók við, byggði og sigldi, náði alveg upp í 14 stig og hætti. Krissi gerði, Óli náði þá í 16 stig og þá var komið að Vigfúsi. Hann dró upp gríðarlegan fjölda af spilum, hirti vegakerfið, byggði borg og með því, spilið búið, málið dautt!
Já, hann gerði það enn eina ferðina. Undirritaður vill þó meina að hann hafi hamast duglega á honum í þetta skiptið. En stundum er það ekki nóg, stundum þarf eitthvað aðeins meira.
En skemmtilegt spil, jafnt og mikið fjör.
Sigurbjórinn tel ég að sé Leffe Brune, stór. Eiki kom með 2 skemmtilega kalla, frá Kongens Brughus, Langfartsøl og Gåse Hvid. Undirritaður tók nokkra jólakalla, Rosey Nosey, Nils Oscar og Fanø jólabjóra.
Þangað til næst, Óli í turninum.

Eldra efni

March 2007   April 2007   May 2007   June 2007   July 2007   August 2007   September 2007   November 2007   January 2008   February 2008   March 2008   April 2008   November 2008   January 2009   March 2009  








This page is powered by Blogger. Isn't yours?