Wednesday, September 26, 2007

 

Afmæli og Catan

Eftir langt og gott sumarfrí tókst að smala saman í Catan spil í Dómarahorninu hjá Rúnari. Það vildi svo skemmtilega til að Rúnar átti afmæli um svipað leyti og því var ákveðið að slá tvær flugur í einu höggi, hylla afmælisdrenginn og spila Catan. Það var því ekki í kothús komið þegar að drengirnir tóku að streyma inn, ilmandi mexikósk stemmning í eldhúsinu og Freysalingurinn klyfjaður af stórkostlegu gæðaöli. Eftir einn léttan öl og þegar að Rúnar var búinn að rífa utan af pökkunum þá var setist að snæðingi. Drengirnir átu eins og það væri enginn morgundagur og þeir allra hörðustu skófluðu í sig franskri súkkulaðitertu a la Hugrún, tær snilld.
Þá tók alvaran við! Freysi reif tappana úr flöskunum. Þemað þetta kvöld var "Norræn örbrugghús", nánar tiltekið Norrebro Pacific Summer Ale, sænskur IPA, Mikkeller Monk's Elixir og Nogne O Stout. Stórkostlegir bjórar en undirritaður varð mest hrifinn af sumarölinu frá Norrebro og munka elixirnum frá Mikkeller, frábærir bjórar.
Hófst þá spilið. Þáttakendur að þessu sinni voru Óli, Eiki, Vigfús, Freysi, Rúnar og Krissi og Atli spiluðu tvenndarleik. 6 manna kóngurinn Abbi mætti ekki. Freysi byrjaði, bölvaði því dálítið, og Vigfús setti síðastur niður. Spilið búið? Margur myndi halda það. En allir stilltu frekar hefðbundið upp nema Krissi og Atli stóluðu á timbur og timburhöfn og Eiki tók á rás beint út í eyju. Spilið var nokkuð jafnt, allir fengu sín tækifæri, allir misstu upphafsborgirnar sínar einhvern tímann í spilinu. Loftið var rafmagnað, ölið flæddi um skrokkinn og oxaðist saman við mexikóska og franska sveiflu úr eldhúsinu. Allt í einu, pólskipti! Allt svart! Gibson fann hvernig lífið rann úr greipum hans þegar hann heyrði rödd Elisu fjarlægjast, myndi hann nokkurn tímann sjá hana aftur? Örvænting. Hvernig komst hann í þessa aðstöðu? Voru það tengsl hans við Stasi eða einhver fjarlægur atburður í æsku hans? Úff, datt aðeins út þarna! En eftir nokkuð mas þá komst Eiki í lykilstöðu úti í eyju, Vigfús var skæður, Krissi og Atli mokuðu inn hráefni. En allt kom fyrir ekki, Eiki kom sterkur inn eftir langt frí frá Stavnsvej og kláraði spilið með stæl! Mótherjar hans voru gáttaðir á herkænsku hans og voru vissir á því að hann var búinn að vera í stífum æfingabúðum hjá Hr. Klaus Teuber í allt sumar. Eða þá hann neytti ólöglegra lyfja, hann var nú með einhverja samansuðu í dós sem hann mokaði í sig, hver veit?
En nú er Eiki aftur farinn frá Stavnsvej og eftir sitja gáttaðir spilarar, hvað fór úrskeiðis? Hverjum er um að kenna? Mun Gibson aftur finna Elisu sína? Það kemur í ljós í næsta spili.

Eldra efni

March 2007   April 2007   May 2007   June 2007   July 2007   August 2007   September 2007   November 2007   January 2008   February 2008   March 2008   April 2008   November 2008   January 2009   March 2009  








This page is powered by Blogger. Isn't yours?