
Hann stendur álútur á miðjum akrinum, vindurinn blæs í gegnum hár hans sem og akurinn sem gefur frá sér lágan þægilegan nið. Það er sól og heitt í veðri en hann stendur þarna óvarinn og hugsar. Hugsar stíft, hvernig verð ég ríkur og hvernig öðlast ég frama? Hann lítur upp, svitinn lekur niður ennið yfir fagur mótað andlit hans, hann horfir yfir land sitt, þar er ekkert að sjá nema órækt, svæði sem tilvalið væri að nýta betur. Gæti þetta verið lykillinn? Ræktun...er það málið? Hvað er best að rækta, hvað selst, hvað þrífst? Það er vandasamt að vita, kaffi er erfitt að eiga við en er hins vegar vinsælt um allan heim, kaffi er gull. Tóbakið er einnig dýrt og mun einfaldara í meðhöndlun en tóbak er óþverri en ætti honum ekki bara að vera sama, það er hann sem þarf að lifa og dafna? Maís, sykur og indigo er líka möguleiki en hvað með hveiti? Nei líklega ekki. Freysalingur sest niður á þúfu, hann er þungt hugsi, hann fiktar við flösku sem hann hefur meðferðis, flösku sem hann verslaði sér fyrir síðustu dublonurnar sínar, hann strýkur yfir merkimiðann...það mótar fyrir stöfunum North Bridge Extreeme. Flaskan er sveitt og þakin móðu. Hvað á hann að gera hann hefur aðeins eitt tækifæri enn. Freysi opnar flöskuna ummm, notalegur humallinn stígur upp úr flöskunni og gælir við sál hans, hann róast ögn við þetta. Svo er allt í einu eins og ljós hafi kviknað í dimmum huga Freysa, þarna var það auðvitað. Freysi stendur upp og horfir yfir tilvonandi plantekrur sínar. Hann fær sér sopa af bjórnum og tárast af gleði, gleði yfir því að vera kominn með áform en ekki síður yfir því hve óskaplega góður þessi undarlegi bjór frá Nørrebro Bryghus er. Já þetta verður gaman, en hvað er þetta? Yfir hæðina í fjarska má sjá skip nálgast eyjuna, Freysi bregður fyrir sér sjónaukanum....aðkomumenn, hvítir! SAMKEPPNI!!! Afhverju einmitt núna? Freysi lokar flöskunni og stekkur af stað, hann verður að hafa hraðann á, hann verður að vera fyrstur til þess að lifa af. Hann á aðeins 3 duplonur, enga vinnumenn og enga framleiðslu, hvað skal til bragðs taka? Hvenær verða mennirnir komnir og hvað verða þeir margir? Enginn veit en Freysi telur líklegt að baráttan hefjist um miðbik vikunnar. Það verður blóðugt!