
Að kvöldi 25. maí hittust 5 sprækir Catan spilarar og kepptust um 5 manna krúnuna. Þáverandi 5 manna meistari Ólafur Helgi mætti á svæðið, gestgjafinn Freysi var að sjálfsögðu þar líka, Jói, Abbi og núverandi 6 manna meistari, Eiki kóngur. Óli spilaði út nýju reglunni og valdi að fá 6 í upphafskastinu en það var Eiki sem að byrjaði spilið. Þar sem að við vorum bara 5 við spilið þá ákváðum við að maður mætti bara kaupa borgir, byggja riddara, o.s.frv. þegar maður á sjálfur að kasta. Eftir fyrstu umferðina misstu bæði Óli og Eiki borgirnar sínar og það var vont. Næst þegar að skipið sigldi í höfn misstu Freysi og Abbi borgir en Jói hin illi stóð uppi með tvær borgir. Þetta mikla borgarhrun skýrist af því að kornið kom ekki mikið upp í byrjun spilsins. Þegar leið á spilið byrjaði Abbi á að sigla út í eyju, sama gerði Eiki og þegar leið á spilið þá náði Freysi þeim áfanga líka. Undirritaður gerði ítrekaðar tilraunir til að endurreisa borg á eyjunni en þar sem að aðrir spilarar hentu jafnharðan upp óvernduðum borgum þá kom það alltaf í minn hlut að henda borginni minni í ruslið. 4 tilraunir, 4 ónýtar borgir. Freysi var duglegur að benda á að aðrir spilarar voru með sigurstöðu í spilunum, en hann var sjálfur í fínni stöðu. Hann hamaðist vel og lengi á Jóa, kom riddaranum vel fyrir á borgarreitunum hans og reyndi allt hvað hann gat til að brjóta hann niður. Abbi komst fljótlega upp í tveggja stafa tölu og Eiki var klárlega með mesta landsvæðið undir sinni stjórn. En eftir að þristurinn kom upp tvisvar sinnum á stuttum tíma þá stækkaði blævængurinn hans Jóa allsvakalega. Mótspilarar hans voru nefnilega búnir að pilla af honum góðar tölur og láta hann fá þrista í staðinn. Freysalingurinn fékk því næst að ráða kastinu hans Jóa og valdi 7 öllum til mikillar undrunar. Jói henti gífurlegu magni af spilum en hélt nógu mörgum eftir til að fletta líninu í fjórða skiptið og var þá kominn með tvær gular og fallegar borgir. Hann kláraði svo dæmið og sigraði spilið. Lúmskur er hann og slunginn. Krúnuna fær hann og það er svo sem allt í lagi. Hann er að flytja heim til Íslands bráðum og lendir þar í skafrenningi og blindbyl, vonandi að krúnan veiti honum hlýju.